„Imposter syndrome“

Þetta orð, imposter syndrome, hefur verið mér hugleikið í svolítinn tíma. Skilgreining sem ég fann á netinu hljóðar svona:

To put it simply, imposter syndrome is the experience of feeling like a phony—you feel as though at any moment you are going to be found out as a fraud—like you don’t belong where you are, and you only got there through dumb luck. It can affect anyone no matter their social status, work background, skill level, or degree of expertise.

Alla mína ævi hef ég reynt að vera eins og heyrandi manneskja. Ég var sú eina í fjölskyldu minni sem heyrði illa þegar ég var að alast upp, svo ég hafði af þrjósku minni, bitið í mig að ég væri ekki nógu góð því ég heyrði ekki nógu vel. Því varð ég að sanna, að ég gat verið jafn góð og aðrir, og það gerði ég með því að standa mig vel í skóla. Ég var fróðleiksfús og las allt sem ég komst yfir. Ég var ekki há í loftinu þegar ég kláraði allar barnabækurnar sem til voru á heimilinu og hóf að lesa skáldsögur og sjálfsævissögur. Sjónminnið mitt var gott, sem leiddi til þess að stafsetningin mín var 100% og ég mundi flest allt sem ég hafði lesið.

Ég var alltaf með bók með mér hvert sem ég fór. Það er til mynd af mér að lesa bók í áttræðisafmæli afa míns, því það var auðveldara fyrir mig að lesa en að reyna að fylgjast með öðrum að tala saman og heyra ekki neitt.

Þarna var það strax í æsku, sem ég var út undan innan um fólk, því ég heyrði ekki vel og missti því af bröndurum, skilaboðum og félagslegum vísbendingum. Ég valdi því oft tengilið innan hópsins sem hélt mér upplýstri. Innan fjölskyldunnar fékk mamma það hlutverk og í vinahópnum vinkonan sem ég náði bestum tengslum við. Þrátt fyrir þetta þá missti ég samt af miklu og fékk oft að heyra að það sem ég missti af hafði ekki skipt máli.

Ég var lengi týnd og leitaði að einhverjum sem skildi mig og væri eins og ég. Þannig var það í menntaskóla að ég kynntist hóp heyrnarlausra ungmenna á sama aldri og ég. Ég var komin með áhuga á táknmál svo hópurinn tók vel á móti mér og upp frá því var þetta helsti vinahópurinn minn í næstum tvo áratugi. Upp úr tvítugu var ég orðin sátt við að vera ég, heyrnarskert stúlka, sem naut af því besta af báðum heimum sem ég tilheyrði, í samfélagi heyrnarlausra og eins samfélagið sem ég ólst upp í sem var heyrandi.

Samt var þessi tilfinning innra með mér, sem sagði að ég tilheyrði ekki. Ég gat talað íslensku en missti mikið úr því ég heyrði ekki nógu vel. Ég skildi orðið táknmál, en ég fann að ég náði aldrei sömu færni og heyrnarlausu vinir mínir, sem höfðu talað táknmál síðan þau voru með bleiu. Ég sat oft og fylgdist með, og lagði sjaldan orð í belg. Þannig er þetta ennþá, nema að stundunum fjölgar sem ég herði upp hugann og tek meira þátt í samræðum annarra.

Nú er ég rúmlega fertug og þessi „imposter“ tilfinning, er sterkari, ef eitthvað er. Ég er ekki nógu góð mamma – því ég heyri ekki. Ekki nógu góð eiginkona – því ég heyri ekki. Ekki nógu góður kennari – því ég heyri ekki. Ég er líka orðin langþreytt, eftir að hafa verið dugleg alla mína ævi, svo orkan er ekki sú sama og áður. Síðustu mánuðina hef ég verið að skoða sjálfa mig, hrósa sjálfri mér fyrir það sem ég hef afrekað og vera skilningsrík þegar ég þarf að hlúa að sjálfri mér með því að hægja á mér og hvíla mig.

Mig langar ekki lengur að vera imposter, svo ég verð að þekkja styrkleika mína og breyta veikleikum mínum í styrkleika. Það geri ég með því að standa betur með sjálfri mér og láta skýrt í ljós hvað ég þarf til að ég geti tekið þátt í samfélaginu.

Svo ég nefni dæmi, þá hef ég tekið þátt í íbúafundi í sveitarfélagi mínu og þá tók ég með mér litla hljóðnemann minn sem er tengdur við kuðungsígræðslu mína (CI) með bluetooth tækni. Ég talaði við stjórnendur fundsins og bað þá um að nota hljóðnemann minn svo ég myndi heyra í þeim, sem var auðsótt mál. Ég gat því setið fundinn og fylgst vel með.

Þetta litla tæki „Cochlear Mini Mic“ hefur auðveldað líf mitt mjög mikið. Allt í einu get ég hlustað á aðra og samt slakað á, því hljóðin koma auðveldar til mín og ég þarf ekki að eyða mikilli orku í að hlusta.

Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *